Þorsteinn Eggertsson kominn aftur „Heim í Búðardal“

0
1787

Screen Shot 2015-12-17 at 06.00.31Vefsíðan Búðardalur.is og hugmyndin á bak við hana var kynnt í Leifsbúð í Búðardal  mánudagskvöldið 28.maí 2012. Ríflega 40 manns mættu á opnunina og þar á meðal var Þorsteinn Eggertsson einn ástsælasti textahöfundur landsins og maðurinn sem segja má að hafi komið Búðardal og Dölunum á kortið með textanum „Er ég kem heim í Búðardal“ við lag Gunnars Þórðarsonar.

Fyrst Þorsteinn heiðraði samkomuna með nærveru sinni var ekki annað hægt en að fá hann til að opna vefsíðuna formlega sem hann og gerði eftir að hafa sagt viðstöddum frá sögunni á bak við textann.

Þorsteinn minntist á að hafa verið í sveit rétt fyrir utan Búðardal á bænum Saurum árið 1956 hjá bræðrunum Hermanni Jóhannessyni og Benedikt Jóhannessyni. Einnig minntist Þorsteinn á að hann myndi eftir stúlku, Melkorku að nafni sem hafi verið á bænum en hún hafi þá verið  ellefu ára en hann ný fermdur 14 ára gamall. Þorsteinn sagðist sennilega ekki hafa séð stúlkuna síðan þá um árið.  Var Þorsteini þá bent á að Melkorka væri í salnum og var skemmtilegt að sjá þau Þorstein og Melkorku hittast aftur við þetta tækifæri. Viðtal sem tekið var við Þorstein á dögunum mun birtast hér á síðunni innan tíðar.

Nú þegar vefsíðan Búðardalur.is hefur verið í loftinu í um það bil sólarhring og má segja að viðtökurnar hafi verið framar vonum og hafa heimsóknir á síðuna verið vel á annað þúsund og frá hinum ýmsu löndum. Má þar helst nefna fyrir utan Ísland,  Noreg, Danmörku, Bandaríkin, Ástralíu, Svíþjóð, Holland, Rússland og Spán. Er það von þeirra sem standa að vefsíðunni að fólk verði áfram duglegt að heimsækja síðuna og ekki síst duglegt við að benda á efni eða senda inn efni sem gæti átt erindi þangað.

Einnig er fólk hvatt til að skrá sig á póstlista vefsíðunnar hér hægra megin á síðunni og fá þannig sendar upplýsingar í tölvupósti þegar nýtt efni eða annað áhugavert er sett inná vefinn. Einnig er hægt að gerast vinur vefsíðunnar á Facebook með því að smella á Facebook hnappinn efst í hægra horninu og svo má líka fylgjast með á Twitter.

Nokkrar ljósmyndir frá opnuninni má finna hér fyrir neðan.