Búðardalur.is 1 árs

0
2751

thorsteinneggertssonÞað var á þessum degi að kvöldi 28.maí 2012 að menningarvefurinn Búðardalur.is var formlega opnaður og fór sú athöfn fram í menningarhúsinu Leifsbúð í Búðardal. Það var enginn annar en Þorsteinn Eggertsson textahöfundur sem heiðraði okkur þar með nærveru sinni og tók það að sér að opna vefinn formlega. Hinn eiginlegi opnunardagur vefsins er þó 29.maí 2012.

Þegar við leituðum til Þorsteins tók hann beiðni okkar vel og mætti í Búðardal með eiginkonu sinni Fjólu Ólafsdóttur. Þorsteinn sagði viðstöddum söguna á bak við einn frægasta dægurlagatexta Íslands „Er ég kem heim í Búðardal“,  sem hann orti fyrir hljómsveitina Ðe lónlí blú bojs um árið en sá texti hefur æ síðan haldið nafni Búðardals og Dalanna á lofti.

Þorsteinn dvaldi sem ungur drengur um fermingaraldur í sveit á Saurum í Laxárdal hjá bræðrunum Hermanni Jóhannessyni og Benedikt Jóhannessyni og sagði hann einnig sögu sína af dvöl sinni í þar. Í Leifsbúð urðu endurfundir Þorsteins og Melkorku Benediktsdóttur frá Saurum en þau höfðu þá síðast hist í kringum árið 1956 þegar Þorsteinn var í sveit á Saurum en Melkorka var þá 11 ára gömul. Skemmtilegir endurfundir sem samtvinnuðust sögu Þorsteins.

Á þessum 365 dögum sem liðnir eru frá því að menningarmiðjan var opnuð höfum við fengið um 90.000 heimsóknir sem við erum afskaplega ánægðir með. Vinnan við þennan vef er öll gerð  í frítíma og höfum við því miður ekki náð að koma öllu því efni frá okkur sem við höfum fengið í okkar hendur eða unnið sjálfir. Töluvert af ljósmyndum, myndböndum, viðtölum og öðru efni bíður þess að verða birt en við munum gera okkar besta til þess að koma því á vefinn á næstu vikum og í sumar.

Tæplega 600 manns fylgja Búðardalur.is á Facebook og hvetjum við sem flesta til að gerast vinir okkar þar og fylgjast með okkur því þangað deilum við öllu því efni sem við setjum á vefinn. Þeir sem ekki eru á Facebook geta skráð sig á póstlistann okkar og þannig fengið fréttir.

Eins og áður hefur komið fram hér á vefnum höfum við tvisvar sinnum reynt að sækja okkur styrk til Menningarráðs Vesturlands en án árangurs. Einnig sóttum við um styrk til Menntamálaráðuneytisins en þar var okkur bent á Menningarráð Vesturlands. Svo virðist sem menningarstarfsemi sem þessi eigi sér einhverra hluta vegna engan samastað þegar kemur að styrkveitingum til menningarmála. Það er umhugsunarefni útaf fyrir sig árið 2013.

Að lokum langar okkur að þakka innilega öllum þeim sem hafa stutt við okkur með einhverjum hætti á þessu fyrsta ári sem vefurinn hefur verið í loftinu og vonumst við til að þetta verkefni komi til með að vaxa og dafna með ykkar þátttöku um ókomin ár.

Hér má skoða ljósmyndir frá opnun vefsins í Leifsbúð þann 28.maí 2012.