Viðhald vantar víða í vegakerfi Dalanna

0
2317
Brúin yfir ánna Ljá á leið til Hróðnýjarstaða

Það er mun víðar en á fjölförnum ferðamannastöðum og leiðum á milli þeirra sem þörf er á viðhaldi vega og mannvirkjum á þeim leiðum. Þetta á við um vegakerfi Dalanna líkt og væntanlega á öðrum stöðum á landinu.

Mikið hefur runnið úr veginum frá brúnni

Vegagerðinni er þröngur stakkur skorin er varðar úthlutað fjármagn til viðhalds vega, og eru menn þar á bæ ekki öfundsverðir er varðar úthlutun á því fjármagni sem hrekkur skammt sé litið til allra þeirra staða í vegakerfinu sem kalla á viðhald, lagfæringu og úrbætur.

Eins og fram kom í fréttum á vef RÚV í apríl á síðasta ári og talað var um hér á vefnum eru um 70% vega í Dölum malarvegir og eru þeir margir hverjir mjög varhugaverðir og jafnvel hættulegir. Yfir 70% vega í Dalabyggð eru malarvegir.

Hér sést vel hversu hættuleg aðkoman að brúnni er

Einn af þessum hættulegu vegarköflum í Dölum er vegurinn sem liggur heim að bænum Hróðnýjarstöðum í Laxárdal. Um það bil kílómeter áður en komið er heim að bænum þarf að aka yfir gamla trébrú sem liggur yfir ána Ljá.

Þegar komið er að brúnni kemur í ljós að efnið í veginum hefur runnið frá brúnni til beggja hliða og er nánast bara bílbreidd eftir til þess að komast örugglega yfir hana eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum. Engu má skeika þannig að ekki verði ekið á brúargólfið með ófyrirséðum afleiðingum. Ábúendur á Hróðnýjarstöðum segjast hafa bent  á skemmdina á veginum við brúna í nokkur ár og óskað eftir lagfæringu en ekki hafi verið brugðist við beiðnum þeirra um viðgerð á veginum.