Sauðburður í Saurbæ

0
2650

Síðastliðinn laugardagsmorgun 21.mars þegar Arnar Eysteinsson bóndi í Stórholti í Saurbæ fór til gegninga í fjárhúsin tók á móti honum nýfæddur lambhrútur sem komið hafði í heiminn um nóttina. Mun hrúturinn hafa verið kominn á fætur og borið sig vel.

í samtali við Ingveldi Guðmundsdóttur eiginkonu Arnars og bónda í Stórholti er móðir hrútsins hún Malla sem ber númerið 19-964. Faðerni hrútsins er ekki vitað en Ingveldur segir að miðað við fæðingardaginn hafi lambið orðið til um mánaðarmótin október/nóvember líklega rétt áður en samskiptabann hafi verið sett á milli ásetningshrúta og gimbra er haft eftir Ingveldi.

Að lokum kom fram hjá Ingveldi að þess mætti geta að fósturtalning hafi farið fram hjá þeim bændum í Stórholti daginn áður ,á föstudeginum, og þá hafi komið í ljós að fjórir gemlingar og þrjár ær myndu bera fyrr en skipulag þeirra hafi gert ráð fyrir þannig að greinilegt væri að eitthvað hefði verið um „frjálsar í fjárhúsunum“ eins og Ingveldur orðaði það.

Við óskum þeim bændum í Stórholti til hamingju með lambhrútinn sem vonandi er forboði þess að nú fari vetur að víkja fyrir vori.

Hugmynd frá okkur hjá Búðardalur.is hvort ekki væri rétt að nefna hrútinn bara Þórólf Víði Möller.

UPPFÆRT:
Það hefur nú fengist staðfest að lambhrúturinn í Stórholti hefur hlotið formlega nafngiftina Þórólfur Víðir Möller.